Hvað er heyrnartæki?
Uppistaðan í heyrnartæki er lítill hljóðmagnari með hljóðnema. Hljóðinu er breytt í rafmerki sem síðan eru mögnuð og svo umbreytt í hljóð á ný. Í þetta þarf orku sem rafhlaðan gefur.
Heyrnarskerðing er af ótal gerðum
Lítið gagn væri af heyrnartækjum ef þau mögnuðu öll hljóð jafn mikið því heyrnarskerðing er jafn margbreytileg eins og fingraför fólks. Hjá sumum minnkar næmni fyrir hárri tíðni en hjá öðrum fyrir meðaltíðni og hjá enn öðrum fyrir bassatíðni. Auk þess skynjar fólk hljóð, hljóðstyrk og hávaða hvert með sínum hætti. Þess vegna er mjög mikilvægt að það sé unnt að sníða virkni heyrnartækja eftir þörfum hvers og eins.