Heyrnarfræðingur

Sérfræðing þarf til að mæla heyrn og greina niðurstöður

Til að tryggja rétta greiningu er mjög mikilvægt að löggiltur heyrnarfræðingur mæli heyrn og greini niðurstöður enda er kveðið á um það í reglugerð frá heilbrigðisráðherra, en í 2. gr. segir: „Rétt til að kalla sig heyrnarfræðing og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.“ Einnig segir: „Leyfi skv. 2. gr. má veita þeim sem lokið hafa að minnsta kosti 3ja ára BS/BA-próf í heyrnarfræði frá háskóla sem viðurkenndur er sem slíkur af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi ….“

Í starfsleyfaskrá eru upplýsingar um alla heilbrigðisstarfsmenn sem hafa gilt starfsleyfi frá landlækni.
Á síðunni, sem opnast fyrir starfsleyfaskrá, er innskráningarform og með því að velja úr flettilistanum, Heilbrigðisstétt, eina stétt birtist listi yfir þá sem hafa gilt starfsleyfi í henni, án þess að fylla þurfi út aðra reiti á innskráningarforminu.

Vanda þarf heyrnargreiningu

Stilling heyrnartækja byggir á nákvæmri og réttri heyrnargreiningu. Þeir sem fá sér heyrnartæki verða þess áskynja að það þarf þekkingu til að þau passi. Heyrnartækin þurfa að falla að heyrn og smekk þess sem notar þau og einnig hæfa því hljóðumhverfi sem notandinn hrærist í. Röng meðferð getur í versta falli leitt til enn meiri skemmdar á heyrn, félagslegri einangrun og valdið því að viðkomandi hafi ekkert gagn af heyrnartækjunum.
Heyrnargreining getur gefið vísbendingu um undirliggjandi sjúkdóm, ef þannig vísbendingar koma í ljós, eða einhverjir kvillar í eyrum, er sjúklingnum vísað til háls-, nef- og eyrnalæknis.

Hjá Heyrn sér heyrnarfræðingur um mælingu og greiningu og unnið er samkvæmt rekstrarleyfi heilbrigðisráðherra. Heyrnarfræðingurinn er menntaður frá Gautaborgarháskóla og hefur hlotið löggildingu sænskra og íslenskra heilbrigðisyfirvalda og þar með réttindi til starfa á samnorræna vinnumarkaðinum.

Reglugerðin var sett 5. júní 2018 og í frétt um hana segir á vef ráðuneytis:

„Heyrnarfræðingar löggiltir sem heilbrigðisstétt

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð sem kveður á um menntun, réttindi og skyldur heyrnarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Reglugerðin felur í sér löggildingu stéttarinnar og hefur sá einn rétt til að kalla sig heyrnarfræðing og starfa sem slíkur hér á landi sem hefur fengið til þess leyfi landlæknis.

Ákvörðun ráðherra um að löggildingu heyrnarfræðinga er í samræmi við tillögu starfshóps sem þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði í ágúst 2017 til að fara yfir þjónustu við einstaklinga með heyrnarskerðingu og talmein með það að markmiði að hún verði sem best.

Heyrnarfræðingar sjá um heyrnarmælingar, fræðslu og endurhæfingu heyrnarskertra. Eins og fram kemur í umfjöllun starfshópsins er mikilvægt að við greiningu á heyrnarskerðingu sé unnið samkvæmt viðurkenndri þekkingu, fræðum og fagmennsku. Því var það mat hópsins að brýnt væri að gera heyrnarfræðinga að löggiltri heilbrigðisstétt til að tryggja gæði þjónustunnar sem þeir veita.

Í samanburði við nágrannalöndin er skortur á heyrnarfræðingum hér á landi. Taldar eru líkur til þess að löggilding muni fjölga nemendum í heyrnarfræði og að íslenskar menntastofnanir taki upp menntunarbraut í heyrnarfræði.

Reglugerðin er sett með stoð í lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Hún hefur nú verið send Stjórnartíðindum og öðlast gildi við birtingu.“

staðsetning

Afgreiðslutími

%d bloggers like this: