Eiríkur Hans Sigurðsson


Búinn að endurheimta umtalsverð lífsgæði

Heyrnin hjá mér var orðin það slæm að ég var hættur að geta tekið þátt í almennum umræðum í kaffistofunni þar sem ég vann. Þegar við hjónin fórum á mannamót, árshátíðir, afmæli eða út að borða með fleira fólki sagði mín elskulega eiginkona að ég setti upp einhvern hálfvita svip þegar ég væri að reyna að fylgjast með umræðunni. Ég náði ekki að fylgjast með og var að einangrast. Þetta hafði ekki gerst í einni svipan, heldur á löngum tíma. En nú stóð ég á tímamótum. Átti ég að hætta að umgangast fólk, eða fara að athuga með heyrnartæki. Ég fór á nokkra staði þar sem heyrnarþjónusta var í boði og skoðaði margar gerðir af tækjum. Þegar ég kom í Heyrn í Hlíðarsmára blasti við mér allt önnur þjónusta en þar sem ég hafði áður komið. Nú bauðst mér að fá lánuð tæki og síðan önnur, þangað til ég var fullkomlega ánægður. Ég keypti að lokum ReSound Alera7. Þá urðu straumhvörf í lífi mínu. Í fyrsta lagi fór ég að heyra hvað eiginkonan sagði við mig, en ekki eitthvað allt annað, eins og svo oft hafði komið fyrir. Og enginn var eins glaður yfir breytingunni og hún. Ég gat einnig farið að taka þátt í umræðum þar sem ég var, hvort heldur það var í bílnum, í kaffistofunni í vinnunni eða á veitingastöðum þar sem mikill kliður var. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu hvað þetta var mikil breyting. Ég hafði heldur ekki gert mér grein fyrir hvað ég var í raun og veru orðinn fatlaður að þessu leyti. Ég bætti svo við tæki sem flytur GSM símtal upp í heyrnartækin og einnig tæki sem flytur hljóðið úr sjónvarpinu í heyrnartækin. Nú finnst mér ég vera búinn að endurheimta umtalsverð lífsgæði.

Gunnar Kr. Sigurðsson


Vellíðan að vera með þessi litlu tæki

Ég er 66 ára karlmaður sem hef þurft að notast við heyrnatæki vegna mikillar heyrnaskerðingar sem hefur ágerst með árunum. Og þegar ég hef verið spurður hvað hafi orðið til þess að ég fengi mér heyrnartæki var svarið auðvelt, það þurfti orðið að endurtaka allt sem við mig var sagt ef ég var ekki í augnsambandi við viðkomandi og þá var konan mín orðin mjög þreytt á þessu líka. Þá kom að heyrnarmælingu og þá kom í ljós að heyrnatæki gætu hjálpað. Fyrir valinu urðu þessi öflugu litlu tæki Dot. Það kom augljóslega í ljós þegar ég fór á árshátíð skömmu eftir að ég fékk tækin að í fyrsta skipti í langan tíma gat ég heyrt í fólkinu, ég heyrði bæði hvað fólkið sagði og í tónlistinni. Það má líka taka fram að samstarfsfólk hafði ekki tekið eftir tækjunum sem ég hafði þá verið með í 2 ár fyrr en ég þurfti að skipta um rafhlöður á vinnustað. Nú hef ég notað þessi frábæru og gagnlegu Dot heyrnartæki í 4-5 ár og hafa þau fullkomlega staðið fyrir sínu og hægt er að stilla þau að versnandi heyrn minni. Ég get svo sannanlega sagt að það er vellíðan að vera með þessi litlu tæki sem maður finnur tæplega fyrir og stundum þarf ég að athuga hvort séu á sínum stað. Þjónusta er líka frábær í alla staði ef ég þarf heyrnamælingu og stillingu á tækjunum tekur ekki nema einn til tvo daga að komast að.

Reynsla 30 ára konu af heyrnartækjum


Táraðist af hamingju

Ég var lengi að sætta mig við mína heyrnaskerðingu og að ég þyrfti að fá mér heyrnatæki. Mér fannst erfitt að velja mér tæki af því ég hafði aldrei prufað þau áður. En hjá Heyrn fékk ég fræðslu um tækin og fékk svo heyrnatæki að láni í tvær vikur og það hjálpaði mér mjög mikið til að taka ákvörðun um að kaupa tækin. Mesti munurinn, sem ég fann, var þennan sama dag og ég fékk tækin, þegar ég var að keyra með dóttur minni og hún var aftur í, vanalega þurfti ég að snúa mér við til að heyra hvað hún var að segja en þarna heyrði ég skýrt hvað hún var að segja og svo söng hún fyrir mig, ég táraðist af hamingju. Ég er mjög ánægð með að hafa keypt heyrnatækin hjá Heyrn og ég er mjög ánægð með þeirra þjónustu.

Brynja Baldursdóttir

Framhaldsskólakennari


Heyrnin mín

Nokkur ár eru liðin síðan fyrst fór að bera á minnkandi heyrn. Ég hváði aðeins of oft þegar nemendur spurðu mig einhvers og stundum nenntu þeir ekki að spyrja aftur, sem mér fannst slæmt. Ég hugsaði stundum um að ég þyrfti að láta mæla heyrnina en gerði ekkert í því fyrr en ég sá auglýsingu frá fyrirtækinu Heyrn í Hlíðasmára. Þar var boðið upp á mælingu og svo var mynd af fremur nettum heyrnartækjum sem mér fannst heillandi. Hringdi og pantaði tíma. Hlýlegt viðmót mætti mér þegar inn var komið. Vingjarnleg kona sat í móttöku og bauð mig velkomna. Ellisif leiddi mig í allan sannleika um heyrn mína og leyfði mér að prófa hvernig væri að vera með tæki sem skerpa þessi mjög svo mikilvægu skynfæri. Þessi heimsókn gerði útslagið, heyrnartæki voru málið. Ég fjárfesti í heyrnartækjum frá Heyrn, afar nettum DOT tækjum sem smellpassa og sjást ekki nema gaumgæfilega sé skoðað. Þjónustan er mjög góð á alla kanta, Ellisif stillir og lagfærir með bros á vör og alltaf eru til allir þeir aukahlutir sem með þarf. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa tekið þá ákvörðun að leita til Heyrnar til að fá bót á heyrnardeyfðinni.

Reynsla 62 ára karls af heyrnartækjum


Ég og heyrnartækin mín

Eftir margra ára ábendingar um að ég þyrfti að fá mér heyrnartæki – ha, hvað varstu að segja? – þá gaf ég mig og fór í heyrnarmælingu. Hefur þú unnið alla æfi í smiðju var ég spurður að lokinni heyrnarmælingu? Þar með lá það fyrir að ég þarfnaðist heyrnartækja og þar með byrjaði nýr kafli í lífinu. Hverju breyttu heyrnartækin fyrir mig. Ég skal segja nokkrar stuttar dæmisögur um það:
  • Þegar ég keyrði frá Heyrn með heyrnartækin á mér fannst mér eitthvað skrítið hljóð í bílnum, tik-takk-tikk-takk, en svo hætti það skyndilega. Skömmu síðar í næstu beygju kom þetta aftur og áttaði ég mig á því að svona heyrist í stefnuljósunum. Þetta var greinilega að virka.
  • Að morgni fyrsta dags míns með heyrnartækin gekk ég sem fyrr út í bíl og heyrði þennan ótrúlega fallega fuglasöng, svo óendanlega fallegan eins og heil sinfóníuhljómsveit væri að spila. Ég sagði konunni að koma að hlusta það væri fullt að fuglum að syngja í garðinum okkar. Henni fannst lítið til koma og sagðist hafa hlustað á þennan fallega söng árum saman, en það er gaman að heyra að heyrnartækin þín virka sagði hún.
  • Síðustu árin fannst mér sem gítararnir mínir væru að breytast, því þeir hljómuðu ekki sem fyrr. Áhugi minn á spilamennsku minnkaði því í kjölfarið. En viti menn, þegar ég spilaði í fyrsta sinn eftir að ég fékk heyrnartækin þá hljómuðu gítararnir miklu betur, hljómurinn miklu fyllri og fallegri þar sem að allt tíðnisviðið fékk nú að njóta sinn. Mikið var þetta ánægjulegt.
  • En eftirfarandi lýsir best hvað mér finnst um heyrnartækin mín. Er ég var við veiði fyrir skemmstu þá tók ég eftir því að ég var með símann minn úti í á. Ég hugsaði með mér að ég ætti að fara með í land svo hann skemmdist ekki ef ég hrasaði og færi í kaf, en ég ákvað að taka sénsinn. Þá mundi ég að ég var með heyrnartækin á mér og um leið og ég uppgötvaði það þá strunsaði ég í land, því án heyrnartækjanna minna get ég ekki verið. Svo einfalt er það. Verst að ég streittist á móti í allt of mörg ár.
Heyrnartækin eru af gerðinni Alera 9.

Mörður Árnason

Alþingismaður


Velheyrandi

Nú hef ég tekið mér viðurnefnið Velheyrandi. Heyri í Lindu gegnum þrennar dyr. Heyri í símanum inní stofu. Heyri allt sem allir segja á nefndafundunum. Heyri suð og hvísl og vindinn hvína í lauftrjám hinumegin götu. Heyri skýrt hvellar athugasemdir og lágmæltar spurningar frá stuðningssyninum sem varð sex ára síðustu helgi. Heyri dyn kattarins og anda fisksins. Grasið gróa. Þetta hófst fyrir svona tólf árum í sumarfríi í Frans, í smábænum Argentat við Dordogne-fljót í sunnanverðu Mið-Frakklandi. Indælt frí og eitt kvöldið erum við að ganga heim í miðaldahúsið okkar í bæjarjaðrinum eftir kyrrlátum trjágöngum að kvöldi og Linda fer að tala um hvað engispretturnar séu óvenjulega háværar – en ég heyrði engin engisprettuhljóð og neitaði staðfastlega tilvist engisprettna í Corrèze-héraði. Þetta væri bara einhver ímyndun í henni. Og lauk um daginn þegar var að byrja framhaldsmynd á Stöð tvö um halastjörnu á leið til jarðar með tilheyrandi vesini og útrýmingarhættu fyrir mannkynið – ég hafði horft á fyrrihlutann kvöldið áður við litla hrifningu á heimilinu en var núna að dunda við stofuborðið, og alltíeinu fer Linda að tala eitthvað um hundasund mannkynsins. Það þótti mér sérkennilegt. – Ha? Hundasund mannkynsins? spyr ég. En þá hafði hún verið að tilkynna mér að nú væri á Stöð tvö runnin upp hinsta stund mannkynsins. En auðvitað byrjaði þetta miklu fyrr, í sjálfum Dalagenunum. Pabbi er kominn með heyrnartæki fyrir löngu og við þurftum alltaf að tala hátt við hana ömmu mína í gamla daga – einn föðurbróðir minn var sífellt að nudda í mér þegar ég var í Útvarpsráði og fannst hálfgerður aumingjaskapur að ég skyldi ekki ráða við að láta texta allt í Sjónvarpinu, heyrði ekki bofs. Og sá þeirra bræðra sem stóð mér næst var svo slæmur undir lokin að við bara sátum og horfðumst í augu. Eftir hundasundið dreif ég mig loksins til heyrnarfræðingsins Ellisifjar Katrínar Björnsdóttur í Kópavogi – mæli með henni, ákaflega fær og líka ljúf við skilningssljóa karla á miðjum aldri. Hún mældi í mér heyrnina og hampaði svo línuriti þar sem vantaði eitt hornið. Jamm – ég skil þetta – en þarf ég nokkuð heyrnartæki? Spurði ég og hún sagði já, að sjálfsögðu. Spurði þrim sinnum í samtalinu, fékk þrim sinnum sama svarið. Framhald á bloggsíðu höfundar.

Reynsla 63 ára konu af heyrnartækjum


Öll skynjun virtist skerpast

Ég er 63 ára kona sem fyrir nokkrum árum fékk heyrnatæki hjá ykkur en það gjörbreytti lífsgæðum mínum. Þegar ég fékk heyrnartækin heyrði ég í fyrsta skipti í mörg ár vatnshljóð þegar skrúfað er frá krana, og mörg önnur algeng hljóð í umhverfinu. En mesti munurinn fannst mér vera að skynjun virtist skerpast ég varð meira vakandi fyrir umhverfinu eiginlega má líkja því við þegar maður sér illa og fær gleraugu, en að heyrnin hefði svona mikil áhrif á daglega skynjun kom mér verulega á óvart. Ég er alltaf með heyrnatækin hef ekki gleymt að setja þau upp einn einasta dag. Heyrnartækin eru af gerðinni Dot30.

Magnús Líndal Sigurgeirsson


Kominn í samband við umheiminn

„Það að fá heyrnatæki var stórkostleg breyting, það eru a.m.k. 10 ár frá því að ég varð var við að heyrnin væri farin að skerðast. Ég var eins og allt of margir sagði bara HA og gerði ekkert í málinu. Þegar ég sá auglýsingu frá Heyrn þar sem boðið var að fá heyrnatæki lánuð í viku til prufu sem varð til þess að ég dreif mig. Ég fékk tæki lánuð og þau hafa ekki farið úr eyrunum síðan. Nú er rúmt ár sem ég hef verið með tækin og eina eftirsjáin er að hafa ekki heimsótt dömurnar mínar í Heyrn fyrr. Öll samskipti, sem ég hef átt við þær stöllur, hafa verið með eindæmum góð, viðmótið hlýtt og jákvætt. Þetta jákvæða viðmót varð til þess að ég linnti ekki látum fyrr en ég kom móður minni til þeirra og nú þurfum við mæðginin ekki lengur að kallast á þegar ég hitti þá gömlu. Þetta hljómar e.t.v. eins og pólitískt lof en er svo sannarlega ekki því tækin og samskiptin við Heyrn hafa farið langt fram úr mínum björtustu vonum. Ekki má gleyma hvað konan er glöð með að kallinn sé kominn í samband við umheiminn´´ Heyrnartækin, sem Magnús notar, eru af gerðinni Alera5o g móðir hans er með Alera 7.

Hrefna Filippusdóttir


Heyrnartækin eru orðin svo mikill hluti af mér

„Ég heyri svo vel, ég heyri grasið gróa“ söng Olga Guðrún, það er nú kannski til of mikils mælst, en að heyra það sem ég þarf að heyra, þá er fuglasöngur og hljóð náttúrunnar bara bónus. Heyrnartækin eru orðin svo mikill hluti af mér, að mér finnst ég ekki fullklædd á morgnana fyrr en þau eru komin á sinn stað. Heyrnartækin eru af gerðinni Dot10.

Rakel G. Magnúsdóttir

Námsmaður og kennari


Get tengt við sjónvarp og síma

Ég fór í heyrnarmælingu og þá kom í ljós að ég heyrði ekki nógu vel. Hún Ellisif í Heyrn tók á móti mér og sýndi mér fullt af heyrnartækjum sem ég hafði engan áhuga á. Þegar hún sagði mér að það væri til app í símann sem stjórnaði tækinu þá var ég tilbúin til að prófa og fékk þau lánuð til að byrja með. Fljótlega fór ég að heyra fullt af nýjum hljóðum sem ég hafði ekki heyrt áður og nýr heimur opnaðist fyrir mér. Eitt af því sem mér finnst svo frábært við ReSound Unite tækið er að  geta tengt það við sjónvarpið og notað svo appið til þess að lækka umhverfishljóð og hækka í sjónvarpinu þó svo að það sé stillt lágt fyrir aðra fjölskyldumeðlimi. Heyrnartækin eru af gerðinni Verso 9 og þráðlaus tenging með ReSound Unite

Þorsteinn Hjaltason


Þjónustan hjá Heyrn sérlega góð og persónuleg

Ég fékk heyrnartæki hjá Heyrn síðastliðið sumar, en áður hafði ég verið með heyrnartæki frá öðrum, það voru ágæt tæki. Mér finnst nýju tækin frá Heyrn vera mun betri og við þau er hægt að tengja búnað sem tengir farsíma við tækin, þannig að síminn verður handfrjáls og löglegur þótt talað sé í bíl á keyrslu. Þjónustan hjá Heyrn er sérlega góð og persónuleg, haft er samband við mann öðru hverju og maður hvattur til að hafa samband hvenær sem er ef eitthvað bjátar á.

Valur Hólm


Fyrirmyndar fagþjónusta

Skilningarvitin fimm, sjón, heyrn, ilman, smekkur og tilfinning, eru öll mikilvæg í daglegu lífi manns. Hvernig bregst maður við skerðingu einhvers þeirra t.d. heyrn? Skerðing heyrnar læðist að eins og þjófur á nóttu, hægt og lævíslega. Fyrst telur maður, að tilteknar ytri aðstæður hafi orðið til þess, að talað mál, umhverfishljóð og svo frv berist ekki til manns nægilega skýrt og óbrenglað. Næst skynjar maður og viðurkennir fyrir sjálfum sér, að líklega sé heyrnin ekki eins og hún á að vera. Viðbrögðin þar á eftir einkennast af nokkurs konar mótþróa/afneitun sem óhjákvæmilega leiðir til vandræða í samskiptum við fólk og umhverfi. Þetta var í grófum dráttum mín reynsla. Þegar ég loks viðurkenndi, að heyrnarskerðingin væri óásættanleg gagnvart fjölskyldu, samstarfsmönnum og öðrum sem ég þurfti að hafa samskipti við, tók ég ákvörðun um að fá mér heyrnartæki. Fyrstu tækin sem ég fékk opnuðu aftur að hluta heyrnarsvið sem mér var tapað en dagleg notkun og umhirða var á þann veg, að þau lentu fljótt niður í skúffu engum til gagns. Fjóla, konan mín, var mjög ósátt við þessar málalyktir og hvatti mig til, að leita til heyrnarsérfræðings í Kópavogi sem ræki fyrirtæki með nýstárleg heyrnartæki til sölu, HEYRN ehf. Það varð úr og þar fékk ég fyrirmyndar fagþjónustu og heyrnartæki sem ég nota enn, átta árum síðar. Heyrnartækin eru lítil, þægileg í meðförum og umfram allt þau virka! Síðastliðið haust freistaðist ég til að kaupa ný heyrnartæki af HEYRN ehf, nýja kynslóð sem býður upp á getu, möguleika og virkni sem er ótrúleg. Tækin kostuðu vissulega töluvert en þau lífsgæði, að heyra vel, eru ómetanleg. Að lokum, bestu þakkir til ykkar, Ellisif og Ásdís fyrir fyrsta flokks þjónustu. Valur var með ReSound Dot heyrnartæki en notar núna LinX 9.

Stefáns Ívars Hansen


Fór að heyra fuglasöng

Sæl Ellisif, ég er nú ekki alveg búinn að gleyma þér, þó svo að ég hafi gleymt þér um tíma. Ég ætla nú að reyna að bæta aðeins úr því. Ég er búinn að ganga með heyrnartæki í 9 ár með misjöfnum árangri. Fyrst var ég með tæki sem voru inni í eyranu. Það var mjög erfitt því að ég svitnaði svo mikið undan þeim og þá jókst framleiðslan á eyrnamergnum. Svo var ég með utanáliggjandi tæki sem stilltu sig sjálf og ég gat ekkert stillt sjálfur. Þau voru ágæt til að byrja með en smá saman dofnuðu þau og voru ekki farin að virka almennilega. Rakinn er mikill óvinur heyrnartækja og það er töluverður raki í kringum mig í vinnunni. Á síðasta ári rak ég nefið inn hjá þér og það breytti heil miklu á svipstundu. Ég hafði aldrei áður fengið jafn góða þjónustu á einum degi án undirbúnings, og það ber að þakka þér fyrir frábærar móttökur. Ég fann mikinn mun sérstakleg til að byrja með, ég heyrði ný hljóð í bílnum mínum og umhverfið breyttist allt. Ég fór að heyra orðaskil í útvarpinu og núna get ég tekið þátt í umræðum í kaffistofunni í vinnunni. Síminn er samt enn að trufla mig og mér finnst mjög erfitt að tala við fólk í síma. Þegar ég fór í sumarfrí síðastliðið sumar og svaf í Hjólhýsinu mínu úti í sveit þá fór ég að heyra fuglasöng og mörg önnur hljóð úr náttúrunni sem ég hafði ekki heyrt í mörg ár, þetta var alveg ný upplifun. En toppurinn var samt þegar ég fór á tónleika í fyrsta sinn með heyrnartækin. Ég var búinn að hlusta um stund þegar ég mundi allt í einu eftir því að stilla heyrnartækin á músík þá var mikil breyting ég fór að heyra í einstökum hljóðfærum það var algjör snilld. Síðan er ég búinn að fara á marga tónleika og núna kann að njóta þeirra. Þetta er allt önnur tilfinning þegar maður heyrir hvað fer fram. Það versta sem ég er að glíma við í dag er rakinn hann er alltaf annað slagið að gera mér lífið leitt. En vonandi næ ég tökum á því. Ég kem suður einhverntíma í vor og þá ætla ég að líta til þín.   Stefán notar ReSound LinX 9 heyrnartæki

Inga Steinunn Magnúsdóttir


Hljóðneminn er snilld

„Gömlu“ heyrnartækin voru góðir félagar en hvernig ég fór að án þeirra nýju er mér óskiljanlegt. Hljóðneminn er snilld. Hann er vítt um ræddur í orðanna fyllstu merkingu. Hvar sem ég kem og set hann á borð fær hann verðskuldaða athygli. Þannig að hann er oftast í notkun. Inga var með ReSound Pulse heyrnartæki en nýlega fékk hún sér Verso 9 og fjölhljóðnema.


Þjónusta í sérklassa

Það var nú ljóta vesenið þegar mér var sagt af mínum nánustu að ég heyrði ekki nógu vel. Ég var nú ekki alveg kominn til að gútera það og í lengstu lög sagði ég að ég heyrði bara það sem ég vildi heyra og ekkert umfram það. En þar kom að því að ég þurfti að viðurkenna fötlun mína. Eg fór á stúfana og fann fyrirtæki sem mér lest vel á og þar var ég mældur og í mig troðið heyrnartækjum og sagt að nú heyrði ég allt og meira til. Jú ég heyrði betur en það var alltaf eitthvað að svo á endanum gafst ég upp og þessi tæki voru alltaf meira og minna í skúffunni hjá mér. Annað hvort var þetta ég eða tækin. Fór að skoða auglýsingar og fleira í sambandi við heyrnartæki. Endirinn var sá að ég snéri mér til Heyrnar í Kópavogi. Leist best á það. Þar tók Ellisif á móti mér og mældi heyrnina og var hún ekki par hrifin af henni og sagði að hún skildi konuna mína vel og ég hlyti að vera óþolandi á heimilinu. Ég sagði að það væri nú ekki rétt ég hváði bara stundum þegar ég væri ekkert að hlusta á hana. Þetta endaði auðvitað með því að Ellisif heyrnargreindi mig þarna en hún er jú sérfræðingur í þessu og mælti með sérstökum tækjum sem væru fyrir þá sem væru með talsvert skerta heyrn. En þetta er tæki frá ReSound af Verso7 gerð. Til að gera langa sögu stutta þá hefur mér farið stórkostlega fram í heyrninni segir konan og stundum hægt að tala við mig á milli herbergja. Og þegar ég fer í leikhús þá fer bókstaflega ekkert framhjá manni, ég tala nú ekki um þegar hægt er að nota T-spóluna. Svo fékk ég mér símaklemmuna og tengist hún beint við iPhoninn minn og það er nú aldeilis munur. Fá talið úr símanum beint í eyrun og þarf ekki að halda á símanum. Nauðsynlegt í bílnum. Og svo gildir það sama í iPadinn. Næst er að fá sér sjónvarpsliða þá er maður í góðum málum. Svo er þjónustan þarna alveg í sérklassa. Ef maður hringir og þarf tíma þá svarar engillinn hún Ásdís og alltaf er hægt að finna tíma mjög fljótt. Svo mætir maður og fær alltaf kossa um leið og komið er inn að vísu er þeir í skál en góðir eru þeir samt. En ég sé ekki eftir að hafa skipt yfir til Heyrnar, þar eru öll vandamál leyst varðandi heyrn.

Hjalti Freyr Kristinsson

Kerfisfræðingur og heilsunuddari


Ólýsanlegur munur að fá heyrnartæki loksins

Áður en ég fékk heyrnartækin, þá háði það mér ansi mikið að geta ekki heyrt almennilega orðaskil ef það var mikið af öðrum samtölum í gangi, þó svo að viðmælandi minn væri mjög nálægt mér, allt rann saman. Einnig stóð ég mig að því að þurfa segja "Ha?" allt of oft á hverjum degi þar sem ég heyrði oft bara að það var verið að tala við mig, en heyrði bara ekki orðin nógu greinilega til að skilja hvað var verið að segja, þó svo að það væri ekkert annað að trufla. Í sumum tilvikum voru viðmælendur mínir farnir að tala óeðlilega hátt sem um leið breytt málróm þeirra og þá um leið hætt við að maður væri að misskilja ásetning þeirra. Að ég tali nú ekki um að geta ekki horft á sjónvarpið án þess að þurfa hækka það talsvert til að geta heyrt talið nægilega skýrt. Sum hljóð í daglegu lífi var ég jafnvel bara alls ekki að heyra, t.d. fuglabjarg í fjarska sem var svo sem ágætt að losna við, en væri dýrmætt að hafa samt sem fyllingu í það sem ætti að teljast eðlilegt að heyra. Það var því ólýsanlegur munur fyrir mig að fá heyrnartækin loksins (sem ég hafði í raun beðið allt of lengi með að fá mér) og upplifa hvernig það var að geta heyrt eðlilega aftur. Sum hljóð uppgötvaði ég alveg upp á nýtt. Jafnvel það að heyra enn skýrara í sjálfum mér tala, og þá um leið snúa betur við þeirri þróun hjá mér vera byrjaður að tala oft frekar óskýrt, án þess að fatta það til að geta vandað mig betur - en mögulega sökum þess hversu lengi ég beið með að fá mér heyrnartækin, tel ég að ég hafi farið óþarflega langt inn í óskýrleikann í talandanum mínum. Ég man ennþá hversu furðulegt það var að setja á mig heyrnartækin í fyrsta skiptið, og fyrstu dagana. Öll smáhljóð, skrjáf í blöðum, lyklum, halda um stýrið, klæða sig í, smjatta á matnum.... allt var margföld upplifun og tók smá tíma að venjast. Núna gengur mér margfallt betur að heyra og skilja í viðmælendum mínum, hvort sem það er í margmenni eða annars staðar, jafnvel með mikið af truflandi umhverfishljóðum, en ég finn að ég sæki oft sjálfkrafa í að reyna hækka hljóðið samt enn meira, bara af gömlum og of föstum vana frá fyrri tíð. Mér fannst mjög gott að geta prufað heyrnartækin fyrst í nokkra daga, og fundið þá út betur hvaða tæki hentaði mér best, og um leið fannst mér undarlegt hvað ég fann lítið fyrir þeim. Sérstaklega finnst mér gott að hafa val um nokkrar mismunandi hljóðstillingar í tækinu sem er auðvelt að skipta á milli, eftir því í hvaða aðstæðum ég er staddur. Ég mæli hiklaust með því að þeir sem hafa einhver vandræði með heyrnina skoði það virkilega vel með að fá sér heyrnatæki, því það getur sannarlega breytt lífinu til hins betra á margan hátt. Þjónustan hjá Heyrn er alveg stórkostleg, þar sem virkilega vel er haldið utan um mín mál þar. Bæði ferlið við að finna hentugasta heyrnartækið, svo og að bjóða mér að koma reglulega í heimsókn til að fara yfir tækin, uppfæra hugbúnað ef þess þarf, og aðlaga fínstillingar eftir því sem heyrnin mín þróast. Hjalti Freyr notar Alera761 heyrnartæki sem hann fékk í júlí 2011 en umsögnin er skrifuð í febrúar 2016.

Þórdís Sigurþórsdóttir


Reynslusaga

Sæl Ellisif Ég er frá Selfossi og þú baðst mig að skrifa þér og segja þér frá minni reynslusögu um heyrnartækin mín, ég er nú fyrst að muna eftir því núna. Fyrsta sinn þegar ég fór með tækin út á meðal fólks var þegar ég fór í Bókasafnið hér í bæ og uppgötvaði það að skólasystir mín væri í vinnu þar og ég gjörsamlega vissi ekki hvernig ég ætti að vera vegna þess að ég hélt að hún myndi taka eftir þeim og þá væri ég búin að með lífið komin með tæki aðeins 56 ára gömul þvílík kerling. Einhverjar hugsanir voru að trufla mig í fyrstu en ég er svo ánægð með mitt hlutskifti að ég man þær ekki lengur, ég skal segja þér frá þeim síðar. Þetta er alveg snilld. Vinnufélagar mínir finna strax hvort að ég sé með tækin á mér eða ekki, ég er miklu rólegri og hamingjusamari með heyrnartækin. En það er engin sem sér þau á eyrunum á mér, þau sjást ekki. Ég er miklu öruggari í margmenni. Þórdís er með  Linx7 heyrnartæki

Þóra Stefánsdóttir


Að heyra laufin á trjánum.....

„Það er enginn smá munur á því hvað ég heyri betur eftir að ég fékk hjá ykkur nýju heyrnartækin mín, liggur við að ég heyri manninn minn hugsa...... ég ætla EKKI að vaska upp. En í alvöru, að heyra í laufunum á trjánum hreyfa sig, söng fuglanna og geta tekið þátt í samtölum þar sem fleiri en einn er að tala...... ég get farið í leikhús, bíó og tónleika og heyri allt. Takk fyrir mig“ Þóra notar LiNX7 heyrnartæki og birti þetta innlegg facebooksíðu Heyrnar

Sverrir Hjaltason


Bylting

„Endurnýjaði heyrnartækin í vor. Þessi nýju eru bylting og ekki spillir að fá símann upp í heyrnartækin í akstri. Gott að vera með á nótunum en ekki eins og álfur út úr hól! Ekki spillir elskuleg þjónustan.“ Sverrir notar LiNX2 nr7 heyrnartæki og gaf umsögn á facebook um þjónustu Heyrnar.