Ert þú á leið á þorrablót
23/01/2023Heyrn fagnar 16 árum í júní
25/05/2023Heyrnarþjónusta fyrir alla er slagorð alþjóðadags heyrnar sem haldinn er um víða veröld 3. mars ár hvert.
En hvernig er þessum málum háttað hjá okkur á Íslandi? Hér er gott aðgengi fyrir flesta landsmenn að heyrnarþjónustu og nokkrir valmöguleikar í boði.
Flestar stofurnar eru á höfuðborgarsvæðinu en sumar bjóða upp á heyrnarþjónustu á landsbyggðinni. Það þarf enga tilvísun til að fá tíma hjá heyrnarfræðingi. Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða heyrnartæki og margir sjúkrasjóðir veita styrk til að kaupa heyrnartæki. Einnig er hægt að sækja um uppbót á lífeyri. Mikilvægt er að passa upp á að skipt sé við löggilda heyrnarfræðinga sem bjóða upp á faglega þjónustu.
Þó virðist vera misskilningur í gangi sem gerir það að verkum að fólk skráir sig á biðlista hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni (HTÍ) sem býður upp á tvíþætta þjónustu, fyrir almenning annars vegar og fyrir sérhæfðan hóp sem þarf þjónustu strax og fær hærri endurgreiðslu hins vegar. Þessu þarf að breyta til þess að tryggja hinum almenna borgara sem ekki á rétt á hærri endurgreiðslu betri þjónustu og að sá þurfi ekki að bíða í marga mánuði að óþörfu. Þá hljóta allir að óska þess að sérhæfði hópurinn fái skjóta afgreiðslu. Það eru skýrar reglur hjá talmeinafræðingum HTÍ um það hvað hópi þeir veita þjónustu og það sama ætti að gilda um heyrnarfræðinga stöðvarinnar.
Í hröðu, nútímaþjóðfélagi er krafa um snurðulaus samskipti og þar skiptir heyrnin miklu máli til að vera samkeppnishæf á vinnumarkaði og til þess að geta sinnt fjölskyldu og félagslífi sem best. Heyrnarskerðing er algeng og hafa rannsóknir leitt í ljós að fólk bíður í mörg ár eftir að leita sér aðstoðar vegna heyrnartaps. Þetta getur orðið dýrkeypt bið, bæði andlega og fjárhagslega fyrir hinn heyrnarskerta sem getur oft á tíðum orðið félagslega einangraður. Heyrnarskerðingin getur verið hindrun í námi og starfsframa.
Það ætti enginn að láta ómeðhöndluðu heyrnarskerðinguna sína eða nákominna viðgangast. Enda er það oft á tíðum þannig að það eru fyrst þeir sem umgangast hinn heyrnarskerta sem benda honum á það og vísa til heyrnarfræðings. Það sem við heyrum ekki, getum við ekki vitað að við séum að missa af.
Heyrnartæki er fjárfesting sem er fljót að borga sig. Par af heyrnartækjum kostar frá 188.000 kr og upp í 648.000 kr, af því niðurgreiðir SÍ 120.000kr, þá stendur eftir að par tækja kostar einungis frá 68.000 kr. Að meðaltali endast heyrnartæki í um 5 ár en það fer að mestu eftir umhirðu og umhverfi.
Munið að hávaði er mesti skaðvaldur heyrnarinnar, varist hávaða eða notið heyrnarsíur. En nánar má lesa um heyrnarforvarnir í öðrum greinum á www.heyrn.is
Það er alltaf hægt að bæta það sem gott er og umræða mikilvæg til að efla heyrnarþjónustu. Heyrnarfræði þróast í takt við tímann, heyrnarfræðingar þurfa að fylgjast með tækniþróun og rannsóknum á heyrn. Heyrnarþjónusta fyrir alla er slagorð sem á vel við á degi Heyrnar 2023.
Ellisif K Björnsdóttir lögg.heyrnarfræðingur hjá Heyrn, Kópavogi heyrn@heyrn.is
Grein í Morgunblaðinu